Nýr forseti, nýtt þing, ný stjórnarskrá

The problem with opportunity is that it comes disguised as hard work

Það er vinsælt sport að túlka og jafnvel oftúlka almenn orð forseta Íslands í ræðum. Eðli málsins samkvæmt talar forsetinn almennt og Guðna tókst það ákaflega vel í ræðu sinni án þess þó að vera jafn óræðinn og forveri hans gat oft verið. Því finnt mér áhugavert að sjá hvernig fólk hefur brugðist við orðum hans um nýja stjórnarskrá.

Forsetinn sagði: “Hér hef ég aðeins tæpt á ýmsum samfélagsmálum. Ég mun víkja að þeim oftar á forsetastóli en veit að stjórnmálamennirnir bera þau einnig fyrir brjósti. Þeirra er ábyrgðin og þeir setja lögin. Þau breytast í tímans rás. Það á líka við um stjórnarskrá okkar, grunnsáttmála samfélagsins. Geti þingið ekki svarað ákalli margra landsmanna og yfirlýstum vilja stjórnmálaflokka um endurbætur eða endurskoðun er úr vöndu að ráða. Í þessum efnum minni ég á gildi áfangasigra og málamiðlana.”

Þessi orð má túlka á ýmsa vegu. Bjarni Benediktsson sagði í samtali við RÚV að þetta þýddi takmarkaðar breytingar á stjórnarskránni. Birgitta Jónsdóttir bendir hins vegar réttilega á að nú þegar er búið að vinna nokkra áfangasigra: stjórnlagaráð kom saman, skilaði af sér drögum að nýrri stjórnarskrá og við fengum að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðurnar. Einu áfangarnir sem eru eftir eru á þingi, þar sem meirihlutinn hefur staðfastlega neitað að taka málið fyrir til að hægt verði að ljúka vinnunni og leyfa þjóðinni að kjósa um endanlega niðurstöðu.

Ég verð að vera ósammála fyrrverandi kollegum mínum á RÚV sem sögðu í fyrirsögn að þetta þýddi að Birgitta, og þá væntanlega Píratar, höfnuðu hugmyndum forsetans um málamiðlanir. Þvert á móti tel ég mikið gæfumerki að nýkjörinn forseti hafi stigið varlega til jarðar og rætt þessi mikilvægu mál af yfirvegun í ræðu sinni. Það ætti að vera okkur öllum fordæmi því skotgrafahernaður á síst af öllu við þegar við vinnum í jafn mikilvægu máli og nýrri stjórnarskrá, nýjum samfélagssáttmála fyrir framtíðina.

Við erum komin með nýjan forseta og í haust fáum við nýtt þing. Það er mikilvægt að við nýtum þessi tækifæri og þessi tímamót til að ljúka þeirri vinnu sem er eftir við að færa þjóðinni nýja stjórnarskrá. Ég á ekki von á öðru en að Píratar verði þar fremstir í flokki og á von á farsælu samstarfi og viðræðum við nýkjörinn forseta. Um leið óska ég honum og þjóðinni til hamingju, og bendi á að nú situr í fyrsta sinn forseti íslenska lýðveldisins sem fæddist innan þess. Það eru líka tímamót og mögulega vísbending um að við séum á leið inn í nýja tíma og þurfum ekki að vera föst í viðjum þess gamla.

Vinsamlegast missið ekki vitið utan skrifstofutíma

„Rétt fyrir klukkan þrjú í nótt barst lögreglu tilkynning um konu í sjálfsvígshugleiðingum. Konan var vistuð í fangageymslum í nótt þar sem hún hótaði að fara út í sjóinn þegar hún yfirgæfi lögreglustöðina.“ – Úr dagbók lögreglunnar

Eins og hljómsveitin R.E.M. söng á sínum tíma þá líða allir þjáningar. Allir gráta. Hér á landi sem víðar er hins vegar til undirstétt fólks sem líður sálarkvalir á sjúklegu stigi. Þeir einstaklingar kallast í almennri umræði stundum þunglyndir, stundum geðveikir, stundum bara aumingjar. Sjúkdómurinn er oft falinn, eins og margir geðsjúkdómar, en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að minnst 350 milljónir manna um allan heim þjáist af alvarlegu þunglyndi á því stigi að það teljist sjúkdómur. Sjúkdómurinn getur oft leitt til dauða. Sama stofnun segir að sjálfsvígstíðni á Íslandi sé hærri en víðast hvar í heiminum eða 15 á hverja 100.000 íbúa. Það þýðir að um 45 Íslendingar fyrirfara sér á hverju ári.

Þessi tilvitnun í dagbók lögreglunnar hér að ofan er nýleg en alls ekkert einsdæmi. Raunar veit ég sjálfur um dæmi þess að alvarlega veikt fólk í sjálfsvígshugleiðingum hafi ekki fengið hjálp á ögurstundu. Í minnst einu tilviki var það vegna þess að viðkomandi veiktist utan skrifstofutíma. Sá fór í geðrof þegar bráðamóttaka geðdeildar var lokuð og lögreglan gat ekkert gert nema að ráðleggja viðkomandi – sem var í geðrofi – að fara á Slysamóttökuna og bíða þar á háannatíma um helgi þegar meginþorri þeirra sem þangað leita eru slasaðir eftir drykkju. Það er ekki ákjósanlegt umhverfi fyrir fólk í geðrofi.

Nafnið “Bráðamóttaka Geðsviðs” felur í sér að þangað leitar fólk aðeins í mikilli neyð og hefði maður búist við að tekið væri við öllum sjúklingum í lífshættulegu ástandi. Það er eini staðurinn þar sem fólk með geðraskanir getur leitað eftir bráðri aðstoð án þess að eiga bókaðan tíma. Bráðamóttakan er hins vegar aðeins opin kl. 12.00 – 19.00 virka daga og kl. 13.00 – 17.00 um helgar. Fólk er vinsamlegast beðið um að missa ekki vitið utan skrifstofutíma og bíta á jaxlinn fram á morgun frekar en að deyja. Það er hægara sagt en gert fyrir alvarlega veikt fólk og maður veltir fyrir sér hvort einhverjum dytti í hug að bjóða hjartveikum upp á slíka kosti.

Þrír góðir vinir mínir, allir ungir menn, hafa dáið úr þessum sjúkdómi. Þrisvar á ári kveiki ég á kerti til að minnast lífa sem hefðu ekki þurft að fjara út svo snemma. Það er útilokað að segja mér annað en að lokanir á bráðamóttöku geðdeildar geti kostað mannslíf og ég er því miður nokkuð viss um að það hefur nú þegar gerst. Það er gjörsamlega ólíðandi að í samfélagi eins og Íslandi sé ekki hægt að vera með sólarhringsþjónustu fyrir fólk í bráðri lífshættu.

Við biðjum ekki þá sem verða fyrir slysum að binda sjálfir um sárin og þrauka til morguns en það er það sem við segjum við fólk með alvarlegar geðraskanir.

Ég þykist viss um að við getum gert betur og það kosti ekki hlutfallslega háar upphæðir að manna þessar vaktir og tryggja þannig sjúklingum jafnt aðgengi að bráðaþjónustu sama hvort um andleg eða líkamleg veikindi er að ræða. Það er ekki við starfsfólk Geðsvið að sakast, það gerir sitt besta við ómögulegar aðstæður, það er ríkisstjórnarinnar og Alþingis að bregðast við þessu skammarlega ástandi og það strax. Síðan mætti líka alveg biðjast afsökunar á því að þetta hafi nokkru sinni verið látið viðgangast.

Kjósendur athugið: Nýir fjötrar í boði!

Fyrir nokkrum árum var gerð alþjóðleg könnun í 57 löndum sem leiddi í ljós að 92% aðspurðra töldu lýðræði vera besta stjórnarfar sem völ væri á. Lýðræði er hins vegar teygjanlegt hugtak, eins og svo mörg önnur. Í huga margra eru þingkosningar skýrasta merki þess að virkt lýðræði sé í tilteknu ríki en staðreyndin er sú að kosningar eru í dag nokkuð almennar í heiminum og hafa lítið með raunverulegt lýðræði að gera.

Árið 2013 voru 118 ríki í heiminum sem flokkuðust sem “electoral democracies” – stjórnkerfi þar sem gengið er reglulega til kosninga. Það er töluverður meirihluti þeirra 195 ríkja sem nú eru viðurkennd í heiminum en eins og flestir vita er lýðræði víða ábótavant að einu eða öðru leyti. Evrópa er sú álfa þar sem lýðræðislegt stjórnarfar er hvað útbreiddast og á sér lengsta sögu en samkvæmt nýlegum könnunum hafa Evrópubúar aldrei haft minni trú á sínum kjörnu fulltrúum en í dag. Innan við þrjátíu prósent þeirra sem búa í ríkjum Evrópusambandsins segjast bera traust til þingsins í sínu landi.

Það er staða sem Íslendingar ættu að þekkja vel. Við erum stolt af því að búa í lýðræðisríki en veltum því sjaldan fyrir okkur hvað felst í því annað en að ganga til kosninga á fjögurra ára fresti. Fyrir vikið hefur myndast margumtöluð gjá á milli þings og þjóðar. Traust til Alþingis er ennþá minna en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar; samkvæmt nýjustu könnun Gallups sögðust aðeins 17% Íslendinga treysta þeim kjörnu fulltrúum sem sitja fyrir okkar hönd á Alþingi. Aðeins litlu færri treysta bankakerfinu sem hrundi með eftirminnilegum látum fyrir aðeins átta árum (sem við súpum enn seyðið af í dag). Það er ólíðandi ástandi í ríki sem gefur sig út fyrir að vera lýðræðislegt og augljóst sjúkdómseinkenni veiks lýðræðis.

Að kjósa á fjögurra ára fresti og láta ráðherra þess á milli sjá um að taka allar helstu ákvarðanir fyrir samfélagið er fornt, úrelt og ólýðræðislegt fyrirkomulag. Það var það besta sem var í boði á þeim tíma þegar upplýsingaflæði var lítið og samfélagið fast í gömlum skorðum sem mótuðust meðal annars af takmarkaðri getu til fjarskipta og ferðalaga. Í dag eru aðstæður allt aðrar og við búum í upplýsingasamfélagi sem býður upp á stóraukna þáttöku almennings í lýðræðislegri ákvarðanatöku í rauntíma. Við þurfum ekki að bíða eftir haustskipinu lengur.

Píratar virðast vera eini stjórnmálaflokkur Íslands sem sér það sem er skrifað á vegginn. Aðeins 17% landsmanna treysta þeim sem nú sitja í gamla húsinu við Austurvöll til að gæta hagsmuna þjóðarinnar. Það er ekki ákall um nýjan hóp miðaldra karlmanna í jakkafötum til að mæta og breyta málunum. Það er ekki ákall um nýja stefnu í gjaldheimtu ferðamanna, það er ekki ákall um að skipaður verði starfshópur til að fara yfir möguleika á verðmætasköpun úr mosa eða að reist verði nýtt álver. Þetta er ákall um breytta og lýðræðislegri stjórnarhætti. Þetta segir okkur að kerfið sjálft er rotið.

Píratar hafa orðið við þessu ákalli, ólíkt öðrum stjórnmálaflokkum. Segja má að Píratar séu í raun stofnaðir í kringum þá hugmynd að það þurfi að gera hlutina á nýjan hátt að til að kjörnir fulltrúar geti aftur öðlast traust og trúverðugleika. Fyrsta skrefið er að ráðherrar verði utan þings. Það er ekki lengur í lagi að á fjögurra ára fresti þurfi forseti Íslands að setjast niður og ákveða hver öðlist tímabundi einræði í formi stjórnarmyndunarumboðs.

Bæði fráfarandi og nýkjörinn forseti hafa sagt að þegar komi að úthlutun stjórnarmyndunarumboðs ráði ýmsir aðrir þættir för en beinlínis úrslit þingkosninga. Samt öðlast formenn stjórnarflokkana gríðarlegt vald sem þeir hafa sýnt að þeir nota óspart til að halda almennum þingmönnum sem mest frá ákvarðanatöku. Stjórnarfrumvörp eru unnin á færibandi djúpt inni í ráðuneytum sem er stjórnað af einstaka þingmönnum sem sitja að því er virðist í umboði formanns síns en ekki þjóðarinnar. Þetta er svo allt stimplað nánast sjálfkrafa af þinginu í krafti hefða. Þegar kvartað er undan því að teknar séu ákvarðanir sem brjóti gróflega gegn þjóðarvilja er viðkvæðið alltaf það sama: “Við erum við völd næstu árin, nú er komið að okkur að gera það sem við viljum!”

Viljum við virkilega hafa þetta svona áfram? Að öfgapólar í stjórnmálunum skiptist á að ráðskast með land og þjóð í fjögur ár í senn og svo fari næstu fjögur ár í að snúa öllu til baka? Píratar bjóða aðra leið. Við viljum við færa raunveruleg völd aftur til þingsins úr ráðuneytunum og koma á virku þingræði. Stefnumótunarferli Pírata fer fram í grasrótinni þar sem allir hafa jafnt atkvæði, ekki í reykfylltum bakherbergjum þar sem einhverjir toppar rotta sig saman og semja stefnu ofan í flokksmenn. Nú er unnið hörðum höndum innan Pírata að því að búa til betri samskiptaleiðir á milli þingflokks og grasrótar. Næsta skref er að byggja öfluga brú á milli þingmanna Pírata og allra kjósenda, ekki bara þeirra sem kjósa xP. Að innleiða nýja stjórnarskrá með ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu er einnig í stefnu Pírata, sem liður í að styrkja stoðir lýðræðis í landinu og auka aðkomu almennings að ákvarðanatöku.

Svissneski heimspekingurinn Jean-Jacques Rousseau sagði eitt sinn um þingræði Englands að almenningur þar teldi sig frjálsan en væri það í raun aðeins í aðdraganda kosninga á fjögurra ára fresti. Þá fengju þegnarnir að skila inn atkvæðum sínum í skiptum fyrir nýja hlekki. Í ár, líkt og fyrir fjórum árum, munu allir hinir hefðbundnu flokkar Íslands keppast við að bjóða landsmönnum nýja og glæsilega hlekki úr fínasta glópagulli, skreytta smarögðum og skuldaleiðréttingum. Það eina sem við þurfum að gera í staðinn er að gefa þeim atkvæði okkar og halda kjafti í fjögur ár. Annað hvort það, eða að kjósa Pírata og þingræði.

Hver er maðurinn?

Ef þú ert að velta fyrir þér hver í fjandanum ég er þá fylgir hér stutt æviágrip 🙂

Ég er 35 ára og hef starfað sem blaðamaður stóran hluta ævinnar; fyrst sem barn þegar ég skrifaði um tölvuleiki og körfubolta fyrir ABC, Æskuna, Tölvuheim og fleiri tímarit. Ég er úr Vesturbænum og samhliða þessum fyrstu ritstörfum var ég í Melaskóla, Hagaskóla og Kvennaskólanum.

Ég flutti síðan til Pekíng í Kína um aldamótin, þegar ég var um tvítugt, og bjó þar í rúm þrjú ár. Þar lærði ég afbrotafræði, stjórnmálafræði og félagsfræði í háskóla en lauk náminu í Berlín þar sem ég bjó næstu tvö árin.

Eftir að ég flutti heim árið 2006 var ég blaðamaður hjá Reykjavík Grapevine og síðan fréttamaður á RÚV. Það var gríðarlega fjölbreytt og skemmtilegt starf sem veitti mér mikla reynslu á mörgum sviðum en ég sagði upp á RÚV núna í sumar eftir rúmlega átta ára starf, sem var ákaflega erfið ákvörðun og eitthvað sem ég bjóst aldrei við að gera. Það gerði ég til að geta helgað mig starfi Pírata og þáttaka í stjórnmálum útilokar auðvitað frekari störf á fréttastofunni.

Ég á eina dóttur sem er á þriðja ári og er algjör snúður. Áhugamál mín eru almennur nördaskapur og alþjóðastjórnmál. Ég sigraði uppistandskeppnina fyndnasti maður Íslands árið 2012 og hún hefur ekki verið haldin síðan, sem hljóta að teljast ágæt meðmæli. Ég hef líka skrifað eitt atriði í Áramótaskaupið, sem eru kannski síðri meðmæli.

Ég glímdi við mikið þunglyndi á yngri árum og þekki þau vandamál vel úr minni fjölskyldu en hef sem betur fer náð ágætum bata með aðstoð góðs fólks. Ég hef hins vegar þurft að horfa á eftir þremur góðum vinum sem voru ekki eins heppnir, sem er ein af ástæðum þess að heilbrigðiskerfið (ekki síst geðheilbrigðiskerfið) er mér hugleikið.

Ég hef aldrei tekið þátt í stjórnmálastarfi fyrir utan að kjósa einn ættingja í prófkjöri fyrir mörgum árum. Hinir hefðbundnu flokkar eru einfaldlega ekki að virka og tilkoma Pírata, sem raunverulegur valkostur, er einmitt heila ástæðan fyrir því að ég sagði upp vinnunni og ákvað að skella mér út í þessa sturlun sem íslensk stjórnmál geta verið.

Hvernig sem prófkjörið fer verður nóg að gera í starfi Pírata á næstu misserum og ég hlakka til að taka þátt í því.

Nokkur orð um prófkjör Pírata í Reykjavík

Eins og komið hefur fram býð ég mig fram í prófkjöri Pírata í Reykjavík. Ég væri meira en sáttur við annað sætið í öðru hvoru kjördæminu en það er auðvitað Pírata að ákveða hvernig listarnir raðast. Ég mun því taka glaður við hvaða sæti sem mér býðst.

Stefnumál mín, eins og annarra frambjóðenda Pírata, eiga sér náttúrulega grunn í því lýðræðislega ferli sem er til staðar innan flokksins. Grasrótin ákveður stefnuna í meginatriðum, ekki einhver reykfyllt herbergi eða útvaldir fulltrúar.

Það er þó nauðsynlegt fyrir hvern og einn að forgangsraða til að heildin komist yfir sem mest.

Sjálfur mun ég, í stuttu máli, leggja mesta áherslu á:

  • Að koma heilbrigðiskerfinu til bjargar (ekki síst geðheilbrigðiskerfinu) eftir áratuga niðurskurð og bæta þær óboðlegu aðstæður sem starfsfólk og sjúklingar búa við
  • Að koma á beinna lýðræði og raunverulegu þingræði með því að aðskilja framkvæmdar- og löggjafarvald. Ráðherrar eiga ekki að sitja á þingi.
  • Að afgreiða nýja stjórnarskrá byggða á tillögum sem voru samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslunni um árið
  • Að tryggja að menntakerfið, LÍN þar með talinn, geri fólki kleift að öðlast þá menntun sem það sækist eftir – það borgar sig alltaf fyrir samfélagið til lengri tíma litið
  • Að fara gagngert yfir þáttöku Íslands í alþjóðasamstarfi og setja skýr markmið um hvernig við ætlum að beita okkar rödd á alþjóðavettvangi í samræmi við þau gildi sem við aðhyllumst sem friðsöm og herlaus þjóð í lýðræðislegu samfélagi.

Það er margt annað sem mætti nefna: Skuldamál heimilanna, sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, velferðarmál, jafnréttismál, afglæpavæðing fíkniefnaneyslu og svo mætti lengi telja. Sum þessara mála tengjast því sem ég nefndi hér að ofan en ég viðurkenni fúslega að ég veit mismikið um þessa málaflokka og reyni að einbeita mér að því sem ég þekki vel. Ég á eftir að skrifa töluvert meira um nánari útfærslur á næstunni og í aðdraganda kosninganna sem verða vonandi í haust.

Ég ætla hins vegar ekki að drekkja fólki í texta svona fyrst um sinn á meðan margir eru að kynna sín framboð. Ef þú hefur einhverjar spurningar er þér meira en velkomið að hafa samband við mig á Facebook eða í tölvupósti gunnarh@gmail.com

Svo er hér stutt viðtal sem ég fór í hjá Hringbraut.

Með baráttukveðju,

Gunnar Hrafn.